Sameining á 6 íþróttafélögum
Þann 30.júní 1994 sameinuðust 6 íþróttafélög í eitt stórt og öflugt íþróttafélag sem fékk nafnið íþrótta-og ungmennafélagið Keflavík, sem síðan var breytt í Keflavík íþrótta-og ungmennafélag.Skotfélag Keflavíkur var eitt þeirra og er nú deild innan félagsins með sér kennitölu og stjórn. Störf stjórnar eru meðal annars að sjá um rekstur á haglabyssuvöllum, riffillsvæði, setja upp mót svo og önnur hefðbundin störf deildarinnar.
Aðalfundur deildarinnar er einu sinni á ári og þarf að halda hann fyrir lok janúar samkvæmt lögum félagsins.
Mótaskrá er sett saman af STÍ en það hafa verið 6-10 mót að meðaltali á ári. Félagsmenn skotdeildarinnar hafa tekið þátt í fjölmörgum mótum á vegum á vegum STÍ og hafa staðið sig með prýði.
Æfingasvæði og aðstað deilarinnar er í heiðinni rétt hjá Höfnum ca. 8 km frá Keflavík. Félagsmenn skotdeildarinnar eru um 100 en aðeins 50 eru virkir en vonandi rætist úr því. Félagsgjaldið er aðeins 7000 krónur á ári. Lykill að svæðinu kostar 1000 krónur fyrir skuldlausa félagsmenn.
Innanfélagsmót eru haldin og eru veitt verðlaun fyrir 1., 2. og 3. sætið.
Einnig eru haldin fyrirtækjamót.
Árið 1991 tóku nokkrir duglegir menn sig til og gerðu skotvöll nánast með berum höndum. Þann 8.júlí 1992 var flutt gönul skólastofa sem Keflavíkurbær lét Skotfélag Keflavíkur í té og var síðan breytt í félagshús Skotdeildarinnar.
Skotdeild Keflavíkur á einn glæsilegasta skeetvöll á landinu, einnig er trap og doubletrapvöllurinn á svæðinu.
Völlur þessi var byggður fyrir Smáþjóðaleikana sem fram fóru hér á landi 6.júní 1997. Ekkert var sparað við gerð vallarins. Á Smáþjóðaleikunum setti Einar Stefánsson Íslandsmet og Hjálmar Ævarsson setti einstaklingsmet.
1995-1996 var byggt skýli yfir riffillsvæði. Ágætis aðstaða er nú fyrir riffla og skammbyssur.
Þeir félagsmenn sem hafa greitt félagsgjald geta fengið lykill að svæðinu. Reynt er að opna völlinn í mars eða apríl, þá er snjórinn mokaður burt og geta menn þá byrjað að skjóta leirdúfu. Einnig er hægt að nota völlinn nánast hvenær sem er, bara að hafa samband við einhvern í stjórninni.
Haldnar eru reglulegar æfingar á sumrin, þá er hægt að koma á svæðið, fá kaffi og leiðsögn hjá reyndum mönnum.
Margar mjög góðar og skemmtilegar hugmyndir eru í gangi hjá deildinni en til þess að framkvæma þær þarf fleiri félagsmenn og meiri notkun á vellina.