Fréttir

Frétt frá Evrópumeistaramótinu í Bakú
Skotdeild | 24. júlí 2017

Frétt frá Evrópumeistaramótinu í Bakú

Jón Þór Sigurðsson kollegi okkar úr Skotíþróttafélagi Kópavogs hafnaði núna í morgun í 8.sæti í 50 metra liggjandi riffli á Evrópumeistaramótinu í Bakú í Azerbaijan fyrir Íslandshönd eftir að hafa endað 6. efsti í undanúrslitunum. Þetta er í fyrsta skipti sem Íslendingur kemst í úrslit á stórmóti í riffilgreinum. Jón Þór var fyrstur til að hellast úr úrslitunum aðeins 0.2 stigum á eftir Stefan Rumpler frá Austurríki og 0.7 stigum frá Sebic Milenko frá Serbíu. Eins og sjá má á skorinu munar ekki miklu á því að hann hefði komist lengra í það minnsta.

Úrslitin virka þannig að átta efstu skjóta fyrst tíu skotum og svo tveimur áður en sá með lægsta skorið dettur út. Svo eru skotin tvö skot þangað til sigurvegarinn situr uppi sem er með hæsta skorið. Að þessu sinni var það Yury Shcherbatsevich frá Hvíta Rússlandi sem endaði uppi sem sigurvegari.

Einnig má geta þess að keppendur voru 68 talsins í þessari grein.

Jón Þór hefur keppt fyrir hönd Skotíþróttafélags Kópavogs og þar af leiðandi æft í Digranesi í aðstöðunni þeirra sem og í Egilshöll í aðstöðu SR (Skotfélagi Reykjavíkur).

Við í Skotdeild Keflavíkur höfum átt nokkra stráka sem eru að gera góða hluti þessari grein og höfum einmitt sótt æfingar til Skotíþróttafélags Kópavogs þegar við höfum getað. Ef við hefðum okkar eigin aðstöðu til að æfa þessa grein myndi það lyfta Grettistaki í þessari grein sem er alltaf að verða vinsælli hérlendis.

Við í Skotdeild Keflavíkur samgleðjumst Jóni og óskum honum innilega til hamingju með frábæran árangur. Áfram Ísland!