D-leyfi

Mikið af fyrirspurnum um uppáskrift fyrir D-leyfum eru að berast Skotdeildinni á hverju ári. Ekki er nú eins mikið um það að fólk sé að stunda íþróttaskotfimi sem leyfið er sérstaklega veitt fyrir, en samkvæmt lögum á hann að vera virkur meðlimur í viðurkenndu skotfélagi og hafa stundað reglulegar æfingar í viðurkenndum keppnisflokki í tvö ár og tekið þátt í landsmótum og/eða opnum mótum og ekki gerst brotlegur við umgengnis- og öryggisreglur félagsins. Framangreindar upplýsingar skulu staðfestar af stjórn félagsins þar sem fram komi upplýsingar um æfingar, keppni og ástundun umsækjanda.. Sjá úrdrátt úr skotvopnalögunum hér fyrir neðan.

 

Skotdeildin mun ekki kvitta upp á slíkar umsóknir nema félagsmenn séu búnir að stunda reglubundnar æfingar á viðurkenndum keppnisgreinum í að minnsta kosti 2 ár undir leiðsögn. Skotdeildin lítur á reglubundnar æfingar þannig að félagsmenn mæti a.m.k. einu sinni í mánuði. Æfingar eru undir leiðsögn einu sinni í viku fyrir félagsmenn í loftsal Skotdeildarinnar. Skotdeildin er með tvo einstaklinga sem hafa sótt alþjóðlegt námskeið sem kennarar í riffil og skammbyssuskotfimi. Við verðum með bók sem viðkomandi kvittar fyrir mætingu á æfingar á staðnum. 

Úrdráttur

Flokkur D:

Leyfi sem sérstaklega er veitt einstaklingi eða skotfélagi fyrir skammbyssum vegna íþróttaskotfimi sbr. 11. gr. Lögreglustjóri skal senda slíkar umsóknir með umsögn sinni ríkislögreglustjóra til ákvörðunar.

4. gr.

Skotvopn til íþróttaiðkunar.

Einstaklingur sem hefur verið virkur meðlimur í viðurkenndu skotfélagi, samkvæmt staðfestingu stjórnar félagsins, og uppfyllir skilyrði 2. gr. getur fengið leyfi til að eignast skotvopn samkvæmt ákvæðum III. kafla.

Heimilt er að veita viðurkenndu skotfélagi heimild til að eignast skotvopn samkvæmt III. kafla reglugerðarinnar til notkunar við æfingar, leiðbeiningar eða keppni, enda tilnefni félagið mann, sem uppfyllir ákvæði 1. mgr., er beri ábyrgð á vörslu og ráðstöfun skotvopnanna ásamt stjórnendum félagsins.

11. gr.

Leyfi fyrir skammbyssu.

Einstaklingur sem óskar eftir leyfi til að eignast skammbyssu til iðkunar skotfimi (flokkur D) skal:

1. Hafa haft aukin skotvopnaréttindi skv. 3. gr. (flokkur B) í eitt ár,

2. vera virkur meðlimur í viðurkenndu skotfélagi og hafa stundað reglulegar æfingar í viðurkenndum keppnisflokki í tvö ár og tekið þátt í landsmótum og/eða opnum mótum og ekki gerst brotlegur við umgengnis- og öryggisreglur félagsins. Framangreindar upplýsingar skulu staðfestar af stjórn félagsins þar sem fram komi upplýsingar um æfingar, keppni og ástundun umsækjanda.

Leyfi fyrir skammbyssu, þ.m.t. loftskammbyssu, skal gefið út með eftirfarandi skilyrðum:

1. Að skotvopnið verði einvörðungu notað við æfingar og keppni í viðurkenndum keppnisflokkum á viðurkenndum skotsvæðum skotfélaga.

2. Að skotvopnið sé annars geymt í traustum hirslum.

3. Að hætti umsækjandi iðkun skotíþrótta megi afturkalla leyfi.

Lögreglustjóri skal framsenda slíkar umsóknir með umsögn sinni til ríkislögreglustjóra til ákvörðunar.

III. KAFLI

Íþróttaskotfimi.

8. gr.

Viðurkenning skotfélags.

Félag sem hefur iðkun skotfimi að markmiði skal leita leyfis ríkislögreglustjóra.

Til að öðlast leyfi samkvæmt 1. mgr. skal félag uppfylla eftirfarandi skilyrði:

1. vera stofnað á sérstökum stofnfundi,

2. hafa skipulagsbundna stjórn,

3. hafa félagslög,

4. hafa að lágmarki 20 félagsmenn sem hafi skotvopnaleyfi,

5. vera aðili að Íþróttasambandi Íslands og

6. hafa kennitölu.

Í umsókn skal greina þá keppnisflokka sem fyrirhugað er að iðka innan félagsins.

Áður en umsókn um leyfi er endanlega afgreidd skal leita umsagnar lögreglustjóra í viðkomandi umdæmi.

Uppfylli félag framangreind skilyrði gefur ríkislögreglustjóri út leyfi því til handa. Í þeirri viðurkenningu skulu koma fram þeir keppnisflokkar sem heimilt er að iðka innan félagsins.